top of page

Velkomin á vefsíðu Sálfræðisetursins

  • Sigríður Karen Bárudóttir, cand. psych.
  • Feb 25, 2015
  • 2 min read

Sigríður Karen Bárudóttir Sálfræðingur, cand. psych.

Kæri lesandi!

Um leið og ég bið þig velkominn/ velkomna á síðuna mína vil ég þakka sýndan áhuga á störfum mínum og sálfræðistofunnar sem ég rek. Hér hef ég safnað saman helstu upplýsingum um mig og sálfræðistofuna. Með góðri aðstoð Ásgerðar Jóhannssdóttur vefhönnuðar og vinkonu þá hafa þær verið settar í notendavænt viðmót fyrir vefinn.

Þú ert núna staddur/ stödd á því svæði síðunnar sem verður helgað pistlaskrifum og vangaveltum um ýmis málefni sem varða mannlega hegðun og líðan í nútíma samfélagi. Þar sem hugmyndin er enn á byrjunarstigi og mikil vinna hefur verið lögð í að koma vefnum til ykkar þá er fyrsta bloggið mitt á svæðinu á einföldum spjall-nótum.

Að finna sér meðferðaraðila

Það sem drífur sálfræðing til að setja upp heimasíðu er fyrst og fremst að mér virðist að almennt sé fólk í einhverjum vandræðum í dag þegar kemur að því að velja sér meðferðaraðila. Ég hef heyrt því fleygt að allt of fáir sálfræðingar haldi úti heimasíðu með upplýsingum um sig. Betra aðgengi að slíkum upplýsingum gæti auðveldað fólki að leita til sálfræðings og ákveða hvaða sálfræðingur muni henta sér.

Fram til þessa höfum við sálfræðingar mest (með góðum dæmum um undantekningar þó) reitt okkur á birtingu nafna og einfaldar upplýsingar um okkur á gulu síðum Já.is. Væntanlegir viðskiptavinir okkar hafa því þurft að reiða sig á þær og orðróminn á götunni. Það er mjög eðlilegt og gott mál að fólk tali saman og deili reynslu sinni í þessum efnum til að draga úr líkum á að dýrmætu fé og tíma sé varið í þjónustu sem hentar ekki. Oft fæ ég því fyrirspurnir frá fólki um störf hinna og þessa sálfræðinga og hvort mælt sé með einhverjum sérstökum í hin og þessi verkefnin. Slíkum fyrirspurnum hef ég reynt að svara á heiðvirðan hátt þó ég gangist við því að vera hallari undir þá sem ég hef kynnst í starfi en þá sem ég minna þekki til. Því er auðvitað best að fólk geti tekið upplýsta afstöðu í þessum ákvörðunum eins og öðrum.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa aldrei skort verkefni, sennilega hafa verk mín dæmt sig sjálf, og ég þakka þeim sem hafa vísað til mín skjólstæðingum í gegnum tíðina. Gott orðspor er vitaskuld hjálplegt fyrir okkur meðferðaraðila en fyrir þá sem hafa engan til að vísa sér áfram þá vonast ég til að þessi síða geti komið að gagni.

Sálfræðisetrið opnar

Það sem einnig hefur drifið mig í þessa vefsíðugerð er opnun sálfræðistofunnar sem hefur verið undir mínu nafni síðan 2008 en fer nú undir heitið Sálfræðisetrið. Hér er ekkert kennitöluflakk á ferð heldur er nú tekin stefnan á markvissari uppbyggingu fyrir framtíðina sem býður upp á fjölbreyttari möguleika en kennitala eins sálfræðings býður upp á. Ég get því fullvissað ykkur sem til þekkja að áfram verður ykkur tryggð góð þjónusta undirritaðrar undir þessum nýja hatti.

Hafir þú áhuga á að setja þig í samband við mig þá eru upplýsingar hér Tímapantanir.

Ef þú ert enn í vafa og vilt leita frekar þá gæti leitarvél á heimsíðu sálfræðingafélagsins komið þér að gagni: Sálfræðingar í Sálfræðingafélaginu.

Góðar stundir,

Sigríður Karen Bárudóttir

 
 
 

Comments


Nýlegar greinar
bottom of page